Arna Hrafns 897-7888 og Fúsi Helga 846-0768.

Hestar og menn, menn og málefni líðandi stundar.

25.07.2017 00:10

Frábært framtak.

Útreiðar

Já þetta orð er mér tamt þessi dægrin enda ef ekki nú þá hvenær. Veðrið hér á þessari breiddargráðu sem Akureyri tilheyrir hefur verið nær því sem er suður við Miðjarðarhaf.

 Ég minnst setningar er Þorkell Bjarnason heitinn blessuð sé minning hans, hrossaræktarráðunautur sagði í blaðaviðtali á Fjórðungsmóti Norðlenskra hestamanna á  Melgerðismelum sumarið 1976 " Veðrið var dýrlegt svo margir riðu sveittu" tilvitnun líkur.

Já þvílíkur hiti, síðustu daga hefur verið vel yfir 20° og ég held ég muni vart aðra eins umferð um Kaupangsbakka eins og nú.  

Mjög margir voru á ferðinni lengri sem styttri ferðir, austur í Sörlastaði,  í Bárðardal,  í Mývatnssveit og eflaust víðar og styttri ferðir eins og fram á Melgerðismela. 

Þangað einmitt fór ég í góðra vina hópi síðustu viku og það var alveg dásamleg ferð í alla staði. Veðrið gat ekki verið betra, hrossin frábær og félagarnir góðir. 


Og það sem mest er um vert nú er að lofsvert framtak Funamanna í reiðvegamálum er að skila því að Melgerðismelar eru orðnir verulega áhugaverður kostur að heimsækja ríðandi frá Akureyri. 

Mikið átak hefur verið gert framan Akureyrar  og reiðvegur frá Hrafnagili og fram að Melgerðismelum er orðin ansi góður þótt enn megi bæta í og ég veit að Funamenn eru með hugmyndir um frekari endurbætur  á leiðinni.

Ég sendi Funamönnum vinum mínum góðar kveðjur og  veit og trúi að þau orð sem ég lét falla hér á þessari heimasíðu minni fyrir um það bil tveimur árum þar sem ég skammaði þá fyrir dugleysi og kjarkleysi hafa bara ýtt við þeim til þeirra framkvæmda við reiðvegagerð er að ofan greinir. Takk fyrir Funamenn.

 Við Léttismenn höfum á liðnum árum verið ansi duglegir við að laga til og bæta aðstöðuna norðan miðbrautar og erum stoltir mjög af því og það einmitt hefur bara verið til þess að margir eru farnir að ríða leiðina Akureyri - Hrafnagil með viðkomu í Teigsrétt og í áningarhólfinu á Kroppsenginu.

Það sem þarf að laga nú eins fljótt og auðið er eru  aðhöld og réttir á Espigrundinni og við Hólshús.  Ekki er um dýra framkvæmd að ræða, nokkrir staurar og vír,  og veit ég að eflaust gætu einhverjir Léttismenn, þar á meðal ég, komið að því að aðstoða við að koma upp góðri aðstöðu til að stoppa á leið okkar hestamanna um Eyjafjörð.  Það er akkur okkar allra að góð aðstaða sé til að stoppa og sannarlega mikið öryggistriði einnig. 

Nú veit ég að fámennur hópur Funamanna er að vinna í þessum reiðvegamálum og ekki hægt að ætlast til að allt sé gert í einum og einmitt þessvegna nefni ég að við Léttismenn komum með dugmiklar hendur. Bara að hafa samband við mig og ég skal hóa saman góðum hópi til verksins. Mig langar að verða að liði.

Talandi um leiðina Akureyri - Melgerðismelar leiðir einnig hugann að því að við Léttismenn höfum mikinn áhuga á að koma okkur upp húsi norður í nesinu þar sem við höfum hólf og viljum koma upp aðstöðu sem gæti orði einskonar valkostur okkar hewstamanna á móti Sörlastöðum í Fnjóskadal. 

Við Léttismenn eigum reyndar gamalt hús sem við ætlum á næstu dögum að skoða og meta hvort fýsilegt sé að gera það upp og flytja það fram á Melgerðismela og tengja það við vatn og rafmagn ásamt því að koma upp samlernisaðstöðu og annarri góðri aðstöðu fyrir þá sem vilja njóta þessarar dásamlegu útivistararadísar sem Melgerðismelar eru. 

Þess vegna er það svo gleðileg að sjá uppbyggingu reiðvega er ég nefni hér að ofan  og Funamenn eiga klapp á bakið skilið fyrir.

F

 

21.06.2017 21:59

Júní

Halló.

Mikið óskaplega er langt síðan ég kom hér síðast.

Langar að fara að vera hér meira og kasta fram hugðarefnum mínum, af nógu er að taka.

Af hestamennsku minni er það að frétta að ég hef eiginlega ekkert komist á hestbak nú í alltof langan tíma, hef verið upptekin við að stækka sólpallinn minn hér heima og koma fyrir heitum potti. Það hilllir nú undir verklok og upp er risinn algjör paradís hér heima. Stefnt er að því að  snúa sér að því að sinna hrossum, ríða út og hafa gaman.

Ég átti í síðustu viku einkar ánægjulega daga með Helgu Björgu dóttur minni sem býr í Noregi, hún kom hingað heim í heimsókn í nokkra daga og var gaman að fá hana. Við fórum þann 17 júní  aðeins á hestbak feðginin og var það einkar skemmtilegur reiðtúr, ekki frá því að leynist í henni dóttur minni smá hestakona. Nú er hún þessi elska flogin aftur út til Noregs og mikið sakna ég hennar. 

Set hér inn eina mynd af henni með afa sínum 

Nú er búið að loka reiðhöllinni og því færist verksvið mitt aðeins út fyrir hana og framundan er mikil vinna við að girða ný beitarhólf í Skjaldarvík sem og vinna við ýmis önnur tilfallandi verkefni sem falla til.

Mikil vinna hjá mér og fulltrúum Léttis hefur farið í það síðustu daga og vikur að ræða við Akureyrarbæ um reiðvegamál og vil ég aðeins segja það að sú atburðarrás sem fram hefur farið s.l vikur er einu orði sagt dapur vitnisburður um slæleg vinnubrögð og verst af öllu er þó að reynt er að þröngva upp á okkur hestamenn efni í reiðvegi sem  er fullt af óárann, nöglum, glerbrotum og ýmsu öðru í stað þess að viðurkenna hér hrapaleg mistök og leiðrétta þau.  Hef velt því fyrir mér síðustu sólarhringa hvort önnur íþróttafélög væru tilbúin að taka við þessu mengandi efni á æfinga - og keppnissvæði sín.?

Þessu máli er því miður ekki lokið ennþá, en við hestamenn stöndum fast á kröfu okkar að efnið verði fjarlægt að reiðvegunum.

Annars bara blautur júní það sem af er en vonandi fer sól að skína nú þegar lengsti sólargangur er.

Ætla að vera með eitthvað skemmtilegt áfram hér á síðunni.

F

28.02.2017 20:57

Í lok febrúar.

Heil og sæl.

Enn og aftur líður allt of langur tími milli skrifa minna, en hvað er að fást um það eins og segir i kvæðinu, hér er ég mættur og eldsprækur.

Er nýbúin að eiga í uppbyggilegu samtali við Guðmund Sveinsson á Sauðárkróki um hugðarefnið okkar, hrossin og ekki síður félagsmál  og segja má að Gummi eigi næsta leik, ég bíð.

Nú er allt komið á fullt í hestamennsku víða um land en af gefnu tilefni ætla ég ekki að nefna aðra staði en Akureyri svo ég fái það nú ekki á mig að vera með einhver stað á heilanum. Það eina sem ég get sagt og viðurkennt með sanni að ég er með hestamennsku og málefni tengda því áhugamáli mínu gjörsamlega á heilanum og líður bara nokkuð vel með það og er ekkert að sverma fyrir lækningu við því.

Nú eru ,,aðeins"  3 mótaraðir á Akureyri í Léttishöllinni. Gamla góða KEA mótaröðin sem er orðin eiginlega meistaradeild okkar Eyfirðinga og þar með er draumur minn til marga ára að rætast. Svo er komin áhugamannadeild sem ber nafn Guðmundar Hjálmarssonar verktaka á Akureyri, frábært framtak þar og svo er mótaröð æskunnar ekki síður glæsilegt og þarft.

Það er búið að keppa í fjórgangi í öllum þessum mótaröðum og vel hefur til tekist og það sem meira er, mikil þátttaka hefur verið í þessum öllum mótum svo það má ljóst vera að þörfin var á þessu, það er gott.

Mér telst svo til að næstu 11 helgar verði eitthvað mót og eða sýningar í Léttishöllinni og það segir sýna sögu um  gróskuna og kraftinn sem nú er í hestamennsku hér í öllum Eyjafirði og aðeins víðar reyndar, því Húsvíkingar hafa verið að koma til okkar og eru sannarlega auðfúsgestir í okkar glæsihöll sem Léttishöllin er. Allir eru velkomnir til okkar Léttismanna. Þannig hefur það alltaf verið og verður svo áfram.

Enn eitt verð ég að nefna hér og það sjá það svo sem allir að svona  öflug já og metnaðarfull dagskrá rekst ekki af sjálfri sér.  Á bak við hvert mót eru tugir manna og kvenna að vinna í sjálfboðavinnu fyrir sitt félag í hinum ýmsu störfum er þarf til að mótahaldið gangi vel og svo ber svo sannalega til hjá okkur Léttismönnum.  Hvert verk er skipað reynslumiklu fólki í bland við nýliða sem vilja leggja lið og óhætt er að segja að sá stóri hópur fólks úr Létti sem leggur nótt við dag við mótahaldið hjá okkur er okkur dýrmætur og svo sannarlega eigum við og erum stolt af okkar fólki.  Þetta fólk fer í öll verkin, ritarar hjá dómurum, ritarar í dómpalli, fótaskoðun, þulir, vallarstjóri, mótsstjóri, miðasala, sjoppan, eldhúsið, þrifin, frágangurinn á eftir og margt fleira sem fellur til.  Þetta er fólkið á bak við tjöldin.

Svo eru það dómararnir, já blessaðir dómararnir vinir mínir og félagar ekki má nú gleyma þeirra framlagi sem svo sannarlega er ekki öfundsvert á stundum. Hver þekkir ekki að hafa heyrt um dómarann sem ætti að klippa skírteinið sinn og snúa sér að öðru, eða "er hann búin að fara í sjónpróf nýlega" svo ekki sé nú nefnt allt talið um heimadómgæsluna.  Nei þeir eru ekki öfundsverðir dómararnir okkar og ég tek ofan fyrir því fólki sem leggur út í hið ólgandi kviksyndi sem dómgæsla hrossa er oft á tíðum.

Sem betur fer er þetta ekki alltaf eins og ofan greinir og það get ég sagt að sem betur fer tel ég og er þá með þá skoðun að dómarar verða hæfari með hverju árinu sem líður og er það vel.

En eitt verð ég þó að nefna varðandi dómarana annars ágæta en það eru launin. Nú segir eflaust einhver " á nú enn einu sinni að byrja að röfla um þetta" en ef svo er að einhverjum finnst það röfl þá er það bara svo en ég ætla samt að gera það að umtalsefni mínu hér í dag.

Nú tek ég það skýrt fram að ég vil að dómarar fái greitt fyrir sína vinnu,  þannig er það í öðrum íþróttum og ég ætla ekki að vera talsmaður þessa að hestadómarara sitji ekki við sama borð og aðrir hvað það varðar. Það sem ég furða mig á og langar að vita hvar var það samþykkt og hvenær, að dómarar taki minnst laun fyrir 4 klst á hverju móti?  og önnur spurning. Hvenær hækkuðu laun dómara og hver ákveður laun dómara?

Ég verð að segja það alveg frá hjartanu að mér var brugðið nú eftir fyrsta KEA mótið okkar hér á Akureyri þegar ég fékk launakröfur dómara eftir mótið. 5 dómarar dæmdu 4 þeirra eru frá Akureyri, allir í Létti og einn frá Húsavík. Allir skrifuðu 4 klst  á mótið sem sé lögboðið útkall. Ég held að mótið hafi staði í rúmar 3 klst. Tek það skýrt fram að sumir okkar dómara hafa verið að gefa vinnuna sína að hluta og jafnvel að öllu leiti á sumum móta undanfarin ár. Það ber að þakka.

Það má vel vera að þetta sé bara allt í lagi og ekki er ég að furða mig á upphæðinni sem slíkri í laununum sem dómarar fá , þau eru ekki það sem skiptir máli, Það er hlutfallið af veltu mótanna sem fer í að greiða dómurum launin sem er vandamálið, en ef svo fer sem horfir þá stöndum við mótshaldarar frammi fyrir því, að mótin eru rekin á undirballans. Að þurfa að  hækka skráningargjöld umtalsvert og þykir sumum nú þegar nóg um, og eða hækka aðgangseyrir inn á mótaraðirnar um helming hið minnsta. Að óbreyttu standa mótin ekki undir þessu lengur. Það er alveg ljóst að óbreytt getur þetta ekki orðið og mun og sennilega þegar farið að sjá þess stað að minni hestamannafélögin eru orðin vanmegnuð að halda lögleg mót. Því er gott að eiga góða granna sem við Léttismenn erum.  Ég skrifa þetta ekki til að gagnrýna laun dómara, en nefndi það hér ofar að til að halda góð hestamót þarf mikið af góðum mannskap. Hvað myndi nú gerast ef allir þ.e.a.s þeir sem ég nefndi hér að ofan myndu nú vilja fá greitt þó ekki væri nema ca 25% af launum dómara fyrir sína vinnu við mótshaldið. Svari hver fyrir sig.

Skrifa þetta til umhugsunar fyrir þá sem vilja velta þessu fyrir sér.

Annað.

Djö...... er kallinn vel ríðandi eins og oft áður, frábær dagur til útreiða í dag og kallinn fór 5 túra og kom sáttur heim úr hverjum túr.

Annars bara að minna á fimmganginn í KEA mótaröðinni n.k föstudag í Léttishöll.

F

  • 1

Eldjárn

Nafn:

Fúsi helga og Arna hrafns

Farsími:

846-0768-897-7888

Afmælisdagur:

0202-2909.

Heimilisfang:

Langholt 16

Staðsetning:

Akureyri

Heimasími:

462-3713

Um:

Hestar og hestamenn
Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 198
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 591881
Samtals gestir: 113740
Tölur uppfærðar: 19.2.2018 08:23:52